Kvikmyndin Gullsandur, sem hefur verið týnd um árabil, er komin í leitirnar.
Farið hefur verið um ýmsar filmugeymslur Lundúnaborgar í leit að frumgerðinni, án árangurs, þar til nú nýverið, að hún fannst hjá Technicolor. Þess verður því vonandi ekki langt að bíða að þessi kvikmynd komi út á geisladiskum (DVD).
Kvikmyndin Gullsandur naut nokkurrar hylli þegar hún var frumsýnd árið 1984. Hér heima sáu hana um 30.000 bíógestir, en þar fyrir utan hlaut myndin áhorfendaverðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Lübeck. Myndin kom aldrei út á VHS myndbandi, þar sem eigendur hennar höfðu skömm á þeim tæknilegu annmörkum sem einkenndu þann miðil.
< Til baka